Fyssa

Gjáin er þriggja metra djúp, úr henni rísa tveir steindrangar, tæplega sjö metra háir. Verkið er steypt í gegnlitaða steinsteypu, en annað aðalefni þess er vatn.
Rennsli vatnsins er stjórnað með flóknum dælu- og tölvubúnaði. 1995.

Nafn listaverksins er Fyssa, sem er samstofna orðinu foss. Grunnhugmynd verksins er náttúruöflin eins og þau birtast á Íslandi. Jörðin rifnar svo sprungur og gjár myndast, berggangar verða til í gosum, jarðlög eyðast og drangar rísa. Vatn safnast í gjár, frýs í glufum og klýfur björg.
Listaverkið stendur að hluta til upp úr yfirborði jarðar, að hluta til gengur það niður í jörðina og myndar gjá, og að hluta til breiðir það sig flatt á yfirborðinu. Það myndar línu í gegnum steinlögnina í garðinum sem gefur til kynna sprungustefnu jarðlaga á Íslandi.

Vatnsrennslið er síbreytilegt, líkt og í náttúrunni, þannig að ásýnd verksins breytist stöðugt. Hljóðið sem myndast þegar vatnið fellur í gjána er síbreytilegt vegna mismunandi þrýstings í vatnsbununum.

Viðtal á Stöð 2, 1995