Future Cartography

Um nokkurt skeið hefur Rúrí unnið með framtíðar fornleifafræði í verkum sínum. Í innsetningunni Future Cartography tekst hún á við framtíðar kortlagningu.

Listaverkið Future Cartography er innsetning. Þrjár risastórar teikningar eru burðarás verksins. Þetta eru landakort, sem listamaðurinn hefur teiknað af ítrustu nákvæmni, en eru þó all frábrugðin þeim sem við eigum að venjast. Efnistökin eru önnur,  sýna ekki strandlínur eins og við þekkjum þær í dag.

Í samvinnu við Gunnlaug M. Einarsson landfræðing, hefur hún teiknað upp landakort sem byggja á vísindalegum grunni hnattrænnar landafræði, en varða jafnframt  framtíð jarðar, og taka mið af spám um yfirvofandi breytingar á lögun landa í kjölfar hnattrænnar hlýnunar.
Í listaverkinu er skoðað hvernig útlínur og strendur landa verði ef austur íshella Suðurpólsins bráðnar að fullu.

Við lifum í síbreytilegri náttúru jarðar. Það eru ekki bara hinar taktvissu árstíðabylgjur sem setja mark sitt á umhverfið. Náttúruhamfarir geta raskað jafnvægi náttúrunnar, stundum orsaka þær smávægilegar breytingar og afleiðingarnar jafna sig út á tiltölulega skömmum tíma, árum eða áratugum.

En stundum verða afleiðingarnar meiri, jafnvel svo miklar að veðurfarslegt jafnvægi glatast og nýtt jafnvægi kemst ekki á fyrr en eftir margar aldir eða árþúsundir.

Jörðin hefur gengið í gegnum mörg slík röskunarskeið á sinni milljóna ára ævi. En nú stöndum við frammi fyrir því í fyrsta sinn að slíkar hamfarir séu hugsanlega yfirvofandi – af mannavöldum.

Samstarfsmaður við útfærslu kortanna er María Rún Jóhannsdóttir

Kortin eru 240 cm á hæð.

ljósmynd 1 og 4; María Rún Jóhannsdóttir
ljósmynd 2 og 3; Pétur Thomsen
ljósmynd 5 frá sýningu verksins í Oulu Art Museum, 2013, ljósmyndari  LR

Oulu Art Museum-_LR