Vituð ‘ér enn – eða hvað?

Á Hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum verða sýnd tvö mikilvæg verk eftir Rúrí sem tala til okkar tíma og fjalla um eyðileggingu stríðsátaka. Frá 23. apríl til 15. maí 2022 verða verk Rúríar sýnd í aðalsýningarsal og ráðstefnusal Korpúlfsstaða, sem SÍM – Samband íslenskra myndlistarmanna rekur.

Núverandi stríðsátök í Úkraínu minna okkur enn og aftur óþyrmilega á möguleikann á að kjarnorkustyrjöld brjótist út. Tvö verk úr safni myndlistarmannsins Rúrí fjalla á áhrifamikinn hátt um þessi efni, og staðfesta hversu auðvelt er að glutra niður þeim framförum sem orðið hafa í átt að heimsfriði.

Safn var gert 1987, árið sem forseti Bandaríkjanna, Ronald Reagan, og forseti Sovétríkjanna, Mikhail Gorbachov, undirrituðu samning um afnám meðaldrægra kjarnorkuflauga (INF), en samningaviðræðurnar hófust í Reykjavík árið áður. Innsetningin samanstendur af 15 kistum sem í útliti líkjast kistum sem gjarnan má finna á heimilum fólks, og þá gjarnan notaðar sem hirslur fyrir tilfinningaleg og veraldleg verðmæti. Eins og nafn verksins gefur til kynna þá vísa kisturnar til sýningarkassa í söfnum þar sem hlutir sem hafa menningarlegt verðmæti eru geymdir, eða hafðir til sýnis til vitnis um vitsmunaleg, sköpunar eða söguleg afrek.

Í Safni Rúríar, samsafni af hlutum sem hún safnaði á tíu ára tímabili frá stöðum með sérstaka landfræðilega staðsetningu en ósértækir þar sem þeir eru valdir af handahófi, eru ekki hlutir sem hafa persónulegt, menningarlegt eða sögulegt mikilvægi, hlutirnir eru frekar til vitnis um venjulegan og hversdaglegan raunveruleika daglegs lífs.

Þessi sýning á nákvæmlega uppröðuðum hlutum – skjölum, klukkum, tækjum – býður okkur þegar upp er staðið að ímynda okkur að einhverjar verur, á einhverjum ótilteknum tíma í framtíð þar sem Jörðin er ekki lengur byggð af mönnum, virði fyrir sér þessar leifar og velti því fyrir sér hver við vorum.

Elegy (2000) er videóverk, skráning á ferð um Króatíu, Bosníu Herzegóvínu og Serbíu í byrjun árs 1998. Þegar myndavélin ferðast gegnum stræti og húsarústir sjást eingöngu afleiðingar stríðsátaka hvert sem litið er.

Sýningartími: 10 mín.
Myndataka og klipping: Rúrí og Kvik Kvikmyndagerð.
Tónlist: Hilmar Örn Hilmarsson.

Á ferli sem spannar meira en fimm áratugi hefur Rúrí, einn virtasti listamaður Íslands, einbeitt sér að því að takast á við siðferðileg álitamál, tilvistarógn og um skort á mannúð, í verkum sem takast á við heimsvaldastefnu, kapítalisma, félagslegt óréttlæti og umhverfiseyðingu. Rúrí er meðal frumkvöðla í gjörningalist á Íslandi og hefur unnið með fjölmarga miðla, þar á meðal málun, skúlptúr, ritlist, ljósmyndun, kvikmyndir, margmiðlunarinnsetningar og gjörningalist. Byltingarkenndur gjörningur hennar Gullinn bíll (1974) var eitt af fyrstu listaverkunum á Íslandi sem flokkast geta sem pólitískur aktívismi. Hún var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2003 með verkinu Archive-Endangered Waters, gagnvirkri margmiðlunarinnsetningu sem samanstendur af myndum og hljóðum 52 fossa sem voru horfnir eða var ógnað af byggingu virkjana á hálendi Íslands. Fyrir verkið ávann hún sér alþjóðlegt lof.

Sýningarstjórinn Pari Stave er nýráðinn forstöðumaður Skaftfells Myndlistarmiðstöðvar Austurlands á Seyðisfirði. Hún var áður yfirmaður nútíma- og samtímalistadeildar Metropolitan Museum of Art í New York.


* Yfirskrift sýningarinnar er tilvísun í Völuspá